Ragnhildur kom sá og sigraði

Ragnheiður Haraldsdóttir og Kóngur frá Korpu. Sigurvegarar í fjórgangi í Uppsveitadeildinni 2019.

Ragnhildur Haraldsdóttir og Kóngur frá Korpu.

Sigurvegarar fjórgangs í Uppsveitadeildinni 2019

Það var nokkur eftirvænting hjá mótshöldurum Uppsveitadeildarinnar þetta árið þegar blásið var til keppni í fjórgangi þann 1. febrúar. Það var greinilegt að fleiri höfðu hlakkað til keppninnar því húsfyllir varð, þrátt fyrir frostkalt kvöld.

Síðastliðið haust voru gerðar nokkrar breytingar á fyrirkomulagi keppninnar, eftir samræður við hestamannafélögin og keppendur. Ein helsta nýlundan var að opna keppnina fyrir knöpum úr öðrum félögum en Loga, Smára og Trausta, þó félagar þeirra hafi haft forgang um skráningu.

Það eru 35 knapar skráðir til leiks í ár, 20 konur og 15 karlar úr 10 hestamannafélögum. Eins og áður eru 7 lið sem keppa og 3 knapar úr hverju liði taka þátt í keppni kvöldsins. Það var því fjölbreyttur hópur nýrra og reyndra keppenda í Uppsveitadeildinni sem hófu leikinn í fjórgangi. Áhorfendum varð fljótt ljóst að framundan væri skemmtileg keppni með afbragðs hrossum og góðum knöpum.

Forkeppnin var jöfn og spennandi. Sex knapar náðu inn í B úrslit, þrír með einkunnina 6,27. Það voru þeir Benjamín Sandur Ingólfsson og Leynir frá Fosshólum, Ásdís Ósk Elvarsdóttir og Koltinna frá Varmalæk og Þorgils Kári Sigurðsson og Fákur frá Kaldbak. Þær Thelma Dögg Tómasdóttir og Marta frá Húsavík og Ragnhildur Haraldsdóttir á Kóngi frá Korpu komu jafnar þar á eftir með einkunnina 6,37. Efstur inn í B úrslitin urðu þeir Sólon Morthens og Fjalar frá Efri Brú með 6,4 í einkunn.

Fjórir knapar skipuðu A úrslit eftir jafna forkeppni. Birgitta Bjarnadóttir og Sveinsson frá Skíðbakka 1A fengu 6,5 í einkunn, Daníel Larsen og Arthúr frá Baldurshaga nældu sér í 6,6 á meðan Brynja Amble Gísladóttir og Goði frá Ketilstöðum enduðu með 6,83 eftir forkeppni. Efst inn í A úrslit voru þau Rósa Birna Þorvaldsdóttir og Frár frá Sandhóli mei einkunnina 6,87.

Eftir hlé hófust B úrslitin þar sem sex knapar kepptu um hið eftirsótta sæti í A úrslitum. Keppnin var jöfn og sáust góð tilþrif hjá knöpum og hestum, en einnig hnökrar sem kostuðu sitt í svona jafnri keppni. Þeir Þorgils Kári og Fákur enduðu í 10. sæti með einkunnina 5,87. Jafnir í 8. – 9. sæti urðu þeir Benjamín Sandur og Leynir og Sólon og Fjalar með 6.10. Í 7. sæti urðu þær Ásdís Ósk og Koltinna með 6,4 og Thelma Dögg og Marta hrepptu 6. sætið með 6.57 í lokaeinkunn. En það var fljótlega ljóst að þeim Ragnhildi og Kóngi hafði vaxið ásmegin í forkeppninni og komu vel heit inn í B úrslitin sem þau sigruðu með glæsibrag. Lokaeinkunn þeirra var 7,0 og sæti í A úrslitum tryggt.

Eftir hæfilegt hlé var komið að stóru stundinni. A úrslit voru hafin. Hér voru þau Ragnhildur og Kóngur í essinu sínu, greinilega ekki búin að fá nóg. Keppnin var jöfn og spennandi sem yljaði áhorfendum um hjörtu. Góð tilþrif mátti sjá í hverri gangtegund, en einnig kom í ljós að spennustigið var hátt. Keppnin um efsta stæðið var hörkuspennandi og jöfn. Í lokin varð ljóst að í 5. sæti enduðu þeir Daníel og Arthúr með einkunnina 5,93. Næst í 4. sæti urðu þau Birgitta og Sveinsson með 6,53 í einkunn. Þrír efstu knaparnir enduðu með 7 og hærra í lokaeiknunn. Rósa Birna og Frár hlutu þriðja sætið með 7,0 í einkunn, Brynja og Goði enduðu í öðru sæti með einkunnina 7,03. En þau Ragnhildur og Kóngur gerðu sér lítið fyrir og fóru alla leið úr B úrslitum upp í fyrsta sæti. Þau fengu í lokaeinkunn 7,13. Vel gert hjá þeim.

Áhorfendur héldu svo heim á leið eftir skemmtilegt kvöld með flottum sýningum og spennandi keppni. Næsti viðburður í Uppsveitadeildinni 2019 verður haldin föstudaginn, 22. febrúar, en þá verður keppt í fimmgangi.

Deildu:

About Reiðhöllin Flúðum

Reiðhöllin á Flúðum er opin alla daga frá kl. 7:00 - 23:59.