Úrslit tölt og skeið

Uppsveitadeild Loga, Trausta og Smára árið 2018 lauk föstudagskvöldið 13. apríl með skemmtilegri og spennandi keppni í tölti og fljúgandi skeiði.

Fyrir keppnina var mjótt á munum í stigakeppni einstaklinga þar sem Þórarinn Ragnarsson í liði Vesturkots var efstur með 29 stig, en fast á hæla hans var liðsfélaginn Hans Þór Hilmarsson með 28 stig. Jöfn í 3. og 4. sæti voru þau Matthías Leó Matthíasson í liði Subway/Stangarlæks 1 og Rósa Birna Þorvaldsdóttir í liði Hófadyns/Hekluhnakka með 23 stig.
Lið Vesturkots hafði forystu í stigakeppni liða með 72 stig, en næst á eftir kom lið Hófadyns/Hekluhnakka með 67 stig.

Það var því ljóst að hart yrði barist um sigur í einstaklingskeppninni á lokakvöldinu og að keppinautar Vesturkots myndu velgja þeim undir uggum.

Að lokinni forkeppni í tölti stóðu þau Rósa Birna Þorvaldsóttir og Arthúr frá Baldurshaga í liði Hófadyns/Hekluhnakka best að vígi með einkunnina 6,77. Næst á eftir þeim komu þeir Bjarni Bjarnason á Hnokka frá Þóroddsstöðum úr liði Subway/Stangarlæks 1 með einkunnina 6,60. Þriðju inn í A úrslit voru Þórarinn Ragnarsson og Leikur frá Vesturkoti með 6.30 í einkunn. Hans Þór Hilmarsson á hryssunni Forsjá frá Túnsbergi var svo fjórði inn í A úrslitin með einkunnina 5,90. Þeir tveir voru í liði Vesturkots.

Forkeppni

Efst inn í B úrslit urðu þau Erna Óðinsdóttir og Vákur frá Hvammi I úr liði Friðheima/Hvanns I með 5,70 í einkunn og í kjölfarið fylgdi Gunnlaugur Bjarnason á Valtý frá Leirubakka úr liði Hófadyns/Hekluhnakka með 5,67 í einkunn. Þriðji inn í B úrslit varð Hermann Þór Karlsson á Goða frá Efri Brúnavöllum I í liði Baldvins og Þorvalds með 5,57 í einkunn. Jöfn inn í B úrslit urðu þær Sara Rut Heimisdóttir á Brák frá Stóra Vatnsskarði úr liði Hófadyns/Hekluhnakka og Arnhildur Helgadóttir á Gleði frá Syðra Langholti 4 úr liði Vesturkots með 5.50 í einkunn.

Skeið

Verðlaunahafar í skeiði.
Bjarni Bjarnason, sigurvegari.

Eftir forkeppnina í tölti var lagt á fljúgandi skeið. Þórarinn á Hákoni frá Sámsstöðum leiddi eftir fyrstu umferð en þau Helgi Eyjólfsson úr liði Vesturkots á Funa frá Hofi, Bjarni á Randver frá Þórodsstöðum og Rósa Birna á Flipa frá Haukholtum fylgdu fast á eftir. Í annarri umferð fóru hlutirnir að gerast. Hans á Vorsól frá Stóra Vatnsskarði og Bjarni á Randver hjuggu nærri hraðameti sem sett var árið 2015, en Þórarinn og Hákon gerðu sér litið  fyrir og slógu metið á tímanum 2,90 sekúndum. Bætingin var 1/100 úr sekúndu. Þessir þrír skeiðuðu allir í gegnum brautina á tíma undir 3 sekúndum. Þegar þriðja umferðin rann í gegn var ljóst að Bjarni og Randver voru ekki búnir að segja sitt síðasta orð. Þeir félagar gerðu sér lítið fyrir, bættu metið um 2/100 úr sekúndu og þeyttust yfir brautina á 2,88 sekúndum.
Bjarni og Randver sigruðu því skeiðið á nýju mótsmeti. Í öðru sætu urðu þeir Þórarinn og Hákon, en Hans og Vorsól hrepptu þriðja sætið.

B úrslit

 Þá var komið að B úrslitum þar sem Sara Rut og Brák frá Stóra Vatnsskarði hrepptu sæti í A úrslitum með einkunnina 6,44 eftir jafna keppni. Næstur á eftir komu þeir Gunnlaugur og Valtýr með 6,17 í einkunn og þriðju í B úrslitum urðu þær Arnhildur og Gleði með einkunnina 6,00.

A úrslit

Uppsveitadeildin 2018. Sigurvegarar í tölti.

Rósa Birna og Arthúr gáfu ekkert eftir í A úrslitum og sigruðu töltið með jafnri og öruggri sýningu sem skilaði þeim 7,06 í lokaeinkunn. Bjarni og Hnokki sýndu hvað í þeim býr og hrepptu annað sætið með 6,89. Í þriðja sæti enduðu Þórarinn og Leikur með einkunnina 6,67 og þar á eftir komu þær Sara Rut og Brák með 6,67. Hans og Forsjá urðu svo í fimmta sæti með einkunn upp á 5,89.

Reiðhöllin á Flúðum þakkar öllum keppendum fyrir skemmtilega keppni í vetur sem og starfsmönnum mótsins fyrir umgjörð þess. Langþráð breyting á einkunnaskráningu var tekin í gagnið sem einfaldar til muna alla tölvuvinnslu, þó hún hafi ekki verið hnökralaus. En með aukinni færni í notkun Sportfengs þá horfir tölvuvinnsla á mótum til betri og einfaldari vegar.

Deildu:

About Reiðhöllin Flúðum

Reiðhöllin á Flúðum er opin alla daga frá kl. 7:00 - 23:59.